Ungbarnasund Erlu

Leiðarljós

Sett inn 13 feb 2015 undir Á forsíðu, Featured, Fréttir

leidarljos

Í vikunni fór Ungbarnasund Erlu og heimsótti Leiðarljós, stuðningsmiðstöð fyrir fjölskyldur barna með sjaldgæfa og alvarlega langvinna sjúkdóma sem rekin er af sjálfseignarfélaginu Nótt og Dagur. Stuðningsmiðstöðin er ný nálgun við alvarlega langveik börn og fjölskyldur þeirra. Miðstöðin veitir heilbrigðis-og félagsþjónustu út frá einum vísum stað og hefur það hlutverk að skipuleggja og samræma þjónustu við fjölskyldur sem byggist á þeirra forgangsröðun og þörfum. Markmið Leiðarljóss er að samhæfa þjónustuna til að geta fundið bestu mögulegu lausnir fyrir hverja fjölskyldu fyrir sig, svo hægt sé að skapa henni bestu mögulegu skilyrði til góðra lífsgæða, þrátt fyrir veikindi barnsins.

Tilefni heimsóknarinn var að kynnast starfseminni betur því að um síðustu áramót veittum við Leiðarljósi fjórðu úthlutun úr styrktarsjóðinum Gleðistundum en eins og undanfarin ár var styrkurinn 100.000kr. Auk þess söfnuðust með aðstoð iðkenda Ungbarnasunds Erlu 21.000kr krónur við sölu ár snuðum og fylgihlutum í desember og var því heildarstyrkurinn 121 þúsund krónur.

Gleðistundir er styrktarsjóður Ungbarnasunds Erlu. Hlutverk sjóðsins er að styðja við eða styrkja góð málefni sem tengjast börnum. Sjóðurinn var stofnaður í janúar 2011. Megin uppspretta þess fjármagns sem rennur í sjóðinn er frá iðkendum Ungbarnasunds Erlu því að 250 kr af hverju námskeiðisgjaldi fara í hann.

Árið 2011 fékk Downsfélagið á Íslandi 100.000 kr og var styrkurinn ætlaður börnum á aldrinum 0-6 ára.

Árið 2012 fengu tvö félög úthlutað úr sjóðnum. Duchenne samtökin 50.000 kr og félag sem er í fæðingu, Félag fyrir einhverf börn á Íslandi 50.000 kr.

Árið 2013 hlaut Vökudeild 100.000kr úthlutun úr sjóðnum til að bæta aðstöðu fyrir börn og foreldra sem þurfa að eyða miklum tíma þar.

Það var einstaklega gefandi að fá að koma og sjá það frábæra starf sem þar er unnið til að auðvelda fjölskyldum langveikra barna lífið og greiða götur þeirra í ,,kerfinu“. Fyrir þá sem vilja kynnast þessari starfsemi betur geta skoðað heimasíðu þeirra: http://leidarljos.is/

Kveðja Erla og Jónas Rafn, eigendur Ungbarnasunds Erlu og Gleðistunda.