Ungbarnasund Erlu

Gleðistundir – úthlutun fyrir árið 2019

Sett inn 23 des 2019 undir Á forsíðu, Fréttir

Ungbarnasund Erlu óskar öllum gleðilegra jóla og þakkar kærlega þeim sem hjálpuðu Gleðistundum að gleðja í ár.

Gleðistundir er styrktarsjóður Ungbarnasunds Erlu. Hlutverk sjóðsins er að styðja við eða styrkja málefni sem tengjast börnum. Sjóðurinn var stofnaður í janúar 2011 af Erlu og Jónasi eiginmanni hennar. Megin uppspretta þess fjármagns sem rennur í sjóðinn eru frá iðkendum Ungbarnasunds Erlu því að 250 kr af hverju námskeiðisgjaldi fara í hann. Á þessu ári safnaðist einnig fé í Reykjavíkur maraþoni og með frjálsum framlögum fyrir jól.

Í ár, 2019 ákváðum við að styrkja tvö málefni um samtals 220.000 krónur. Hjálparstarf kirkjunnar og Einstök börn.

Hjálparstarf kirkjunnar sinnir óeigingjörnu starfi og leggur sitt af mörkum hver jól til að gefa börnum og fjölskyldum sem eiga um sárt að binda kost á að upplifa sannan jólaanda, borða jólamat, njóta afþreyingar og þiggja gjafir.

Alls nutu 1274 fjölskyldur eða um 3400 einstaklingar um land allt aðstoðar fyrir síðustu jól, 2018 og því má sjá að þörfin er mikil. Nánar um aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar er að finna á http://www.help.is/.

Einstök börn er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni. Félagið var stofnað 13. mars 1997 af foreldrum nokkurra barna en nú hefur félagið stækkað ört og eru rúmlega 250 fjölskyldur í félaginu.

Þeir sjúkdómar og skerðingar sem börn og ungmenni félagsins lifa með eru allir langvinnir og hafa varanleg áhrif á líf þeirra og fjölskyldur. Þar sem um sjaldgæfa sjúkdóma er að ræða hafa margir þeirra lítið verið rannsakaðir og í fæstum tilfellum er til eignleg meðferð við þeim. Allir sjúkdómarnir eru alvarlegir og hafa sumir áhrif á lífslíkur og lífsgæði. Sumir sjúkdómarnir eru það sjaldgæfir að aðeins örfá tilfelli eru til í heiminum. Nokkur börn í félaginu eru með enn sjaldgæfari sjúkdóma og hafa ekki fengið neina staðfesta sjúkdómsgreiningu þrátt fyrir ítarlega leit. https://www.einstokborn.is/

——————————————————————-

Fyrri styrkir

Árið 2011 fékk Downsfélagið á Íslandi 100.000 kr og var styrkurinn ætlaður börnum á aldrinum 0-6 ára.

Árið 2012 fengu tvö félög úthlutað úr sjóðnum. Duchenne samtökin 50.000 kr og félag fyrir einhverf börn á Íslandi 50.000 kr.

Árið 2013 hlaut Vökudeild 100.000kr úthlutun úr sjóðnum til að bæta aðstöðu fyrir börn og foreldra sem þurfa að eyða miklum tíma þar.

Árið 2014 hlaut Leiðarljós úthlutun úr styrktarsjóðinum Gleðistundum en eins og undanfarin ár var styrkurinn 100.000kr. Auk þess söfnuðust með aðstoð iðkenda Ungbarnasunds Erlu 21.000kr krónur við sölu ár snuðum og fylgihlutum í desember og var því heildarstyrkurinn 121 þúsund krónur.

Árið 2015 styrktum við Umhyggju. Félag sem vinnur að bættum hag langveikra barna og fjölskyldna þeirra.

Árið 2017 veitum við Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna á Íslandi. http://www.skb.is/is/um-skb, 150.000kr styrk úr sjóðnum.

Árið 2018 styrkti Gleðistundir tvær fjölskyldur langveikra barna og eitt félag, Neistann um 50 þúsund krónur hvert, eða samtals 150 þúsund.

Sendu Ungbarnasundi Erlu endilega skilaboð ef þú veist af fjölskyldu eða stofnun sem Gleðistundir gæti stutt við bakið á, á næsta ári.